Fréttir

Atkvæðagreiðsla um yfirvinnuálag starfsfólks Landsvirkjunar

Atkvæðagreiðsla um yfirvinnuálag starfsfólks Landsvirkjunar þar sem kosið er um eitt yfirvinnuálag 1,08% af mánaðarlaunum eða tvö yfirvinnuálög 1,0% og 1,15% af mánaðarlaunum.

>>> Kjósa hér

Ályktanir sambandsstjórnar

Á fundi sambandsstjórnar sem haldinn var í Hannesarholti (og í fjarfundi) voru samþykktar tvær ályktanir sem annars vegar lúta að hvatningu til stjórnvalda um að ganga lengra til stuðnings þeim sem misst hafa vinnu og lent í fjárhagserfiðleikum og hins vegar átakinu "Allir vinna" og mikilvægi þess til efnahagslegrar viðspyrnu.  Sambandsstjórnin telur mikilvægt að átakinu verði fram haldið og sveitarfélögin standi við stóru orðin í tengslum við Covid og komi að málum með auknum fjárfestingum.

Ályktun um stuðning vegna efnahagssamdráttar
"Það eru jákvæð teikn á lofti í íslensku samfélagi með komu bóluefnis til landsins. Aukin bjartsýni er að íslenskt efnahagslíf nái auknum þunga á seinni hluta ársins 2021. Íslensk stjórnvöld hafa gripið til margvíslegra aðgerða til að styðja íslenskt atvinnulíf sem ber að fagna. Hins vegar er ljóst að ekki hefur verið gengið nógu langt fyrir þá sem hafa orðið fyrir atvinnumissi og eru í fjárhagslegum erfiðleikum. Mikilvægt að þar kom til frekari stuðnings. Samiðn hvetur íslensk stjórnvöld að halda betur utan um þá sem hafa orðið fyrir áföllum á þessum erfiðum tímum."

Ályktun um átakið "Allir vinna"  
"Samiðn fagnar þeim árangri sem náðst hefur í átakinu “Allir vinna” en á síðasta ári námu endurgreiðslur vegna þess tæpum 20 m.a. kr. Ljóst er að þetta hefur verið mikilsvert innlegg í þeim árangri sem íslenskt samfélag hefur þó náð í afar erfiðu og krefjandi árferði. Samiðn vill hvetja íslensk stjórnvöld að framlengja átakið enda fara þar saman hagsmunir allra.
Samiðn telur milvægt að sveitarfélög auki við fjárfestingar sínar. Þegar tölulegar staðreyndir eru skoðaðar kemur í ljós að þau hafa því miður ekki staðið við stóru orðin í Covid faraldrinum."

Keyrum þetta í gang

Við áramót er oft á tíðum horft um öxl yfir árið sem er að líða en ekki síður fram á veginn. Ljóst er að árið 2020 verður okkur öllum minnistætt og nú þegar byrjað er að bólusetja heimsbyggðina eru bjartari tímar framundan. Ríkisstjórnin fékk stórt verkefni í fangið þegar Covid-19 veiran byrjaði að herja á landsmenn og var gripið til margvíslegra aðgerða. Margar hverjar voru vel heppnaðar, svo sem hlutabótaleiðin og lenging tekjutengdra atvinnuleysisbóta. Ennfremur ber að fagna því að ákveðið var að hækka endurgreiðsluhlutfall vegna vinnu við íbúðarhúsnæði fram til ársloka 2021, og víkka út þá heimild þannig að hún taki m.a. einnig til húsnæðis í eigu sveitarfélaga og bílaviðgerða.
Það er þó ljóst að fjárfestingarátak sem ríkisstjórnin boðaði hefur ekki komið að fullu fram og er mikilvægt að meiri slagkraftur verði settur í þær framkvæmdir á komandi ári. Að sama skapi skiptir miklu máli að sveitarfélögin nýti sér þau tækifæri sem umrædd endurgreiðsla á virðisaukaskatti hefur í för með sér. Til lengri tíma litið felast tækifæri að horfa til nýsköpunar og hvernig nýta megi hana til frekari virðisauka fyrir íslenskt samfélag. Næstu misserin skiptir þó öllu máli að gefa í, hvað varðar framkvæmdir hjá hinu opinbera, hvort sem það er ríkissvaldið eða sveitarfélög. Það er til hagsbóta fyrir okkur öll að fá aukna innspýtingu í íslenskt atvinnulíf sem fyrst á nýju ári. Stöndum saman að því að gera árið 2021 að ári framkvæmda og uppbyggingar.

Iðnfélögin styrkja Rauða krossinn

Iðnfélögin í Húsi Fagfélaganna veittu innanlandsstarfi Rauða kross Íslands fjárstuðning fyrir jólin en með því vilja Byggiðn, FIT, RSÍ, MATVÍS og Samiðn veita þeim stuðning fyrir jólahátíðina sem höllum fæti standa í samfélaginu.  Aðstoðin felst í fjárstyrkjum, matarúthlutunum og fatakortum eftir því sem við á.

Iðnfélögin sem standa að Húsi Fagfélaganna eru nú að ljúka sínu fyrsta starfsári í sameiginlegu húsnæði og með sameiginlega þjónustuskrifstofu. Markmiðið með nánara samstarfinu er að efla starf félaganna og auka vægi þeirra til hagsbóta fyrir félagsmenn sína og iðngreinarnar í landinu.

Við óskum Rauða krossinum velfarnaðar og landsmönnum öllum gleðilegra jóla.

Ályktanir miðstjórnar um skýrslu OECD og opinberar framkvæmdir

Miðstjórn Samiðnar harmar að ekki var haft samráð við félög iðnaðarmanna við gerð skýrslu OECD sem m.a. fjallar um iðnlöggjöfina þó augljóst sé að iðnaðarmenn hafi beinna hagsmuna að gæta. 
Miðstjórn hvetur einnig stjórnvöld til að standa við gefin fyrirheit um aukið fjármagn í opinberar framkvæmdir vegna efnahagssamdráttar sökum Covid.

Ályktun um iðnlöggjöfina  -  Ályktun um opinberar framkvæmdir

Halldór Grönvold - minningarorð

Halldór Grönvold, aðstoðarframkvæmdastjóri ASÍ, lést á Landspítalanum þann 18. nóvember sl. eftir stutt veikindi, 66 ára að aldri. Halldór helgaði verkalýðshreyfingunni starfsævi sína en hann hafði gríðarleg áhrif á þróun margra mikilvægra mála enda brann hann alla tíð fyrir réttindum launafólks. Halldór nam vinnumarkaðsfræði við University of Warwick á Englandi. Eftir heimkomuna starfaði hann hjá Iðju, félagi verksmiðjufólks í Reykjavík, en frá árinu 1993 á skrifstofu Alþýðusambands Íslands þar sem hann var lengst af aðstoðarframkvæmdastjóri auk þess að leiða deild félags- og vinnumarkaðsmála hjá sambandinu. Þá var Halldór um langt árabil stundakennari við Háskóla Íslands þar sem hann kenndi vinnumarkaðsfræði.
Hann sat í stjórn Vinnumálastofnunar frá 1996 og beitti sér mjög í fræðslumálum innan verkalýðshreyfingarinnar og þá einkum starfsmenntamálum. Hann tók þátt í samningum á Evrópuvísu um fjölskylduvænni vinnustaði og breytingu á vinnutímatilskipuninni. Hann barðist fyrir breytingum á fæðingarorlofslöggjöfinni sem náðust árið 2000, þar á meðal rétti feðra til töku fæðingarorlofs. Á síðustu árum hefur Halldór sérstaklega beitt sér fyrir aðgerðum til að uppræta brotastarfsemi á vinnumarkaði. Ber þar helst að nefna baráttuna gegn undirboðum á vinnumarkaði, svartri atvinnustarfsemi, kennitöluflakki auk þess sem Halldóri var mjög í mun að koma á keðjuábyrgð í stærri verkefnum. Öflugra vinnustaðaeftirlit á vegum verkalýðshreyfingarinnar var einnig eitt af því sem Halldór brann fyrir.
Það má fullyrða að fáir hafi haft eins mikil áhrif á mótun íslenska vinnumarkaðsmódelsins og Halldór Grönvold. Hann var einlægur verkalýðssinni með yfirburða þekkingu á vinnumarkaðsmálum. Óhætt er að segja að stórt skarð sé höggvið í raðir verkalýðshreyfingarinnar, við fráfall Halldórs.
Eftirlifandi eiginkona Halldórs Grönvold er Greta Baldursdóttir fyrrverandi hæstaréttardómari. Þau eignuðust tvö börn, Evu og Arnar, og eru barnabörn þeirra nú þrjú.
Starfsfólk Samiðnar vottar þeim sína innilegustu samúð.